Borgar.net

— Go straight to page navigation

04. september 2008

Opin gögn og endurnýtanleg

Við félagarnir tókum okkur til og opnuðum vef, opingogn.net, til þess að reyna að gera upplýsingar um opin gögn á Íslandi aðgengileg miðlægt. Hver sem er má bæta sinni vitneskju inn, og eitthvað er þegar farið að tínast inn.

Það leið ekki langur tími þangað til að ég fékk ábendingu í pósti um áhugaverða klausu í landslögum:

Stjórnvöld skulu birta á heimasíðu sinni lista yfir þær skrár sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslum sem heimilt er að endurnota, svo og þau skilyrði sem slík endurnot eru bundin. Upplýsingalög, 1996 nr. 50 24. maí

Þetta er úr lögum um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996 sem tóku gildi 1. janúar 2007. Eitthvað er þessu ennþá ábótavant, eins og við er að búast. Það er rétt að benda á að stjórnvöldum er sjálfsagt að endurnýta þær upplýsingar sem safnast á opingögn.net, þær eru jú opnar.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þótt heimilt sé skv. upplýsingalögum að endurnýta tiltekin gögn, þá er ekki þar með sagt að það sé hægt. Fyrst þarf jú að komast í gögnin. Þeir þættir upplýsingarlaga sem opna fyrir endurnýtingu gagna stofnanna sem ekki fá undanþágu frá þeim, gefa þó engan rétt til aðgengi að þeim.

Glöggt dæmi um þetta er að finna í úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 21. desember 2007:

Í 1. mgr. 24. gr. laganna segir að markmið kaflans sé að auka endurnot opinberra upplýsinga til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. hefur umræddur kafli þó ekki bein áhrif á rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þar segir að ákvæði kaflans gildi einvörðungu um endurnot fyrirliggjandi upplýsinga sem séu í vörslum stjórnvalda og almenningur eigi rétt til aðgangs að á grundvelli 3. gr. laganna eða annarra ákvæða sem veita almenningi slíkan rétt. Í skýringum við þessa málsgrein í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 161/2006 er áréttað að ákvæði kaflans gildi "einungis um endurnot upplýsinganna en mæli ekki á neinn hátt fyrir um rétt til aðgangs að opinberum upplýsingum."

Þetta þarf að laga. Það þarf að fjarlægja þessar undanþágur skóla, bóka- og skjalasafna, rannsóknastofnanna, ríkisútvarpsins, menningarstofnanna; Það þarf að fjarlægja ákvöður um upprunatilgreiningar og ábyrgðaryfirlýsingar; Það þarf að takmarka leyfi til gjaldtöku við einhver sértilfelli (ef einhver eru); Og það þarf að afnema ákvæði um vernd og gjaldtöku þeirra stofnanna sem rekin eru samkvæmt sérlögum.

Þannig breytum við þessari vannýttu skúffuauðlind í hagvöxt og kreppumeðal. Ég hvet lesendur sem þekkja ekki málið að lesa sér til, og kynna sér málstaðinn.

Published: 04. september 2008. Tagged: , .